IFK Gautaborg vann í kvöld 1-0 sigur á Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en leikið var á heimavelli Hammarby.
Ragnar Sigurðsson og Hjálmar Jónsson léku báðir allan leikinn fyrir IFK Gautaborg en það var Robin Söder sem skoraði eina mark leiksins á 55. mínútu.
Enginn Íslendinganna fjögurra í GAIS var í byrjunarliði liðsins er það gerði markalaust jafntefli við Gefla á útivelli í kvöld. Guðjón Baldvinsson kom inn á sem varamaður í leiknum en þeir Hallgrímur Jónasson, Guðmundur Reynir Gunnarsson og Eyjólfur Héðinsson voru ekki í leikmannahópnum í kvöld.
Þá tapaði Helsingborg fyrir Halmstad á heimavelli í kvöld, 3-1. Ólafur Ingi Skúlason var sem fyrr ekki í leikmannhópi Helsingborg vegna meiðsla.