Innlent

Býr hjá vinum eftir að hafa rifið húsið

Björn Mikkaelsson
Björn Mikkaelsson

„Ég er ekki að hvetja fólk til þess að gera þetta en ég sé alls ekki eftir þessu," segir Björn Mikkaelsson. Á þjóð­hátíðardaginn reif hann húsið sem hann bjó í á Álftanesi en hann hefði þurft að afsala sér því í hendur sýslumanns í dag.

„Ég hefði örugglega séð eftir því hefði ég ekki gert þetta. Það er búið að króa mann þannig af að ég hef engu að tapa." Björn tók 36 milljóna króna lán í erlendri mynt fyrir húsinu árið 2003. Hann reisti það sjálfur enda var hann með fyrirtæki sem sérhæfði sig í því. „Ég hef því byggt fleiri hús en ég hef rifið svo staðan er enn í plús hvað það varðar," bætir hann við í gríni.

Fyrir tveimur árum fór svo að síga á ógæfuhliðina og reksturinn rann út í sandinn á síðasta ári. „Þetta er samspil af mörgum þáttum, ég var kominn í vanskil hjá bankanum þar sem ég lenti í slæmum kúnnum sem borguðu mér ekki. Þetta leiddi til þess að ég lenti í greiðsluerfiðleikum og húsið átti að fara á uppboð nokkrum dögum eftir bankahrun. Þá var lánið komið upp í 78 milljónir." Hann segist hafa fengið þau svör í bankanum að hann yrði að semja sig út úr vandanum en hann fengi enga viðsemjendur því skilanefnd hefði ekki tíma til að sinna hans máli.

Hann segist sjálfur búa hjá vinafólki um þessar mundir en kona hans er komin til útlanda. Þau eiga tvö börn sem bæði eru uppkomin. Hann leiti nú að vinnu, annars sé allt á huldu hjá þeim hjónum með framtíðina. „Ef ég á að dúsa í prísundinni fyrir að rústa einu húsi þá verður örugglega þröngt á þingi því allir þeir sem rústuðu þjóðinni hljóta þá að vera þarna líka," segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×