Innlent

Japanskir dúnkaupmenn skoða gersemar

Æðarbændur vonast til að góðæri haldist í greininni og þeir fái áfram hátt verð fyrir dúninn, þrátt fyrir kreppu í kaupendahópi ríka fólksins í heiminum, og binda vonir við komu tíu japanskra dúnkaupmanna til Íslands um helgina.

Tímabil dúntekju stendur nú yfir. Bændur laða æðarkolluna að sér með því að veita henni skjól gagnvart ránfuglum og ref en hirða í staðinn dúninn sem hún reitir af sér í hreiðrið. Með þessu skapa þrjú til fjögurhundruð íslensk heimili sér hlunnindatekjur sem munar um, þar á meðal á Skarði á Skarðsströnd, en þar sækja feðgarnir Kristinn Jónsson og Hilmar Jón Kristinsson dúninn mest út í eyjar.

Hilmar segir að gengið hafi vel í greininni, sérstaklega góð tíð hafi verið undanfarin ár fyrir æðarfugl, dúnninn sé góður og hann sé að skila sér vel í hreiðrin. Mjög víða sé aukning.

Á Skarði er ein stærsta dúnhreinsunin en yfir eitthundrað bændur leggja þar inn dún. Þetta telst vera lúxusvara ríka fólksins útí heimi sem vill hlýjar og léttar sængur. Verðið var orðið geysihátt, yfir eitthundrað þúsund krónur kílóið og gaf í fyrra um 300 milljónir króna í gjaldeyristekjur. En svo kom kreppan.

Hilmar segir að mikið verðfall hafi orðið, þrátt fyrir hátt gengi. Mikill samdráttur hafi orðið á markaðnum og kaupendur héldu að sér höndum.

En nú er tíu manna sendinefnd helstu kaupenda í Japan væntanleg og Jónas Helgason í Æðey, formaður Æðarræktarfélagsins, vonast til að menn fari ekki með kílóverðið undir hundrað þúsund kallinn.

Hilmar kveðst bjartsýnn og vonast til að japönsku kaupmennirnir verði jákvæðir og bjóði góð verð.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×