Innlent

Efar að ummæli um olíuleit hafi kostað sig þingsæti

Kolbrún Halldórsdóttir, fráfarandi umhverfisráðherra, féll af þingi í kosningunum í gær.
Kolbrún Halldórsdóttir, fráfarandi umhverfisráðherra, féll af þingi í kosningunum í gær. Mynd/Pjetur
„Ég er ekki viss. Hefðum við þá náð inn þremur mönnum í Norðausturkjördæmi,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir, fráfarandi umhverfisráðherra, aðspurð hvort að umdeild ummæli hennar um olíuleit á Drekasvæðinu hafi kostað hana þingsæti. Eftir að öll atkvæði í þingkosningunum í gær höfðu verið talinn kom í ljós að tíu ára þingferli Kolbrúnar væri lokið.

Kolbrún segir að það eigi ekki að hafa komið neinum á óvart að hún hafi efasemdir um að Ísland eigi ekki að einbeita sér á þessari stundu að gerast olíuríki. „Mér fannst ekki vel farið með þessa frétt. Það var lagt út af orðum mínum á ótrúlega ruddalegan hátt af fréttamanni.“

Kolbrún telur að meint ummæli Steingríms J. Sigfússonar um þjóðnýtingu Flugleiða og tal Katrínar Jakobsdóttur um launalækkanir og skattahækkanir hafi allt eins haft þau áhrif að fylgi Vinstri grænna reyndist minna en kannanir höfðu gefið til kynna. „Þessir hlutir hafa allir örugglega áhrif en ég á erfitt með að greina hvort að eitt hafi haft meiri áhrif en annað.“

„Við sjálfa mig að sakast“

Úrslit þingkosninganna eru mikið gleðiefni, að mati Kolbrúnar. „Það er draumur að rætast,“ segir Kolbrún og vísar í samanlagt fylgi Vinstri grænna og Samfylkingar sem geta nú í fyrsta sinn myndað tveggja flokka meirihlutastjórn. Hún telur Borgarahreyfingin hafi tekið fylgi frá Vinstri grænum og þá undrast hún fylgisaukningu Framsóknarflokksins.

Kolbrún viðurkennir að persónulega hafi úrslitin verið talsverð vonbrigði. Hún segir að fyrstu vonbrigði hennar hafi þó verið árangur hennar í prófkjöri flokksins þar sem hún hafnaði í þriðja sæti. „Og þar var við sjálfa mig að sakast því ég var ekki í neinni kosningabaráttu í prófkjörinu.“

Ætlar að kynnast ömmubarni sínu

„Ég ætla að gefa mér tíma til að kynnast litla ömmubarninu mínu sem ég eignaðist 8. febrúar og ég er að halda uppá afmæli dóttur minnar í dag,“ segir Kolbrún aðspurð hvað taki við hjá henni.

Kolbrún gegna embætti umhverfisráðherra þangað til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð.

„Mér hefur fundist mjög ögrandi og virkilega gaman að fá að stjórna þessum málaflokki sem ég hef svo mikla ástríðu fyrir.“

Kolbrún hefur átt sæti á Alþingi fyrir Vinstri græna allt frá því að flokkurinn bauð fyrst fram í kosningunum 1999. Hún var skipuð umhverfisráðherra 1. febrúar þegar minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var mynduð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×