Lífið

Heiðurslaun Þráins vefjast fyrir Borgurum

Mynd/GVA

„Ágæti Mummi (sem ég reyndar var svo óheppinn að sjá aldrei í kosningabaráttunni), Heiða og þið öll. Við skulum sameiginlega hafa eitt á hreinu. Hvort sem ég kemst á þing (vegna útstrikana) eða ekki mun ég ALDREI AFSALA mér heiðurslaunum Alþingis, alveg sama hversu mikil fáfræði ríkir um tilkomu þeirra og eðli (þau eiga ekkert skylt við kúlulán eða prófkjörsstyrki og eru ekki óheiðar-lega fengin)," skrifar Þráinn Bertelsson á póstlista Borgarahreyfingarinnar (xO).

Þegar kosningaúrslit lágu fyrir tóku stuðningsmenn xO að rita hamingjóskir á póstlista samtakanna, einkum til þeirra sem hrepptu þingsæti, þeirra Þórs Saari, Birgittu Jónsdóttur, Margrétar Tryggvadóttur og Þráins Bertelssonar.

Hins vegar tóku menn fljótlega að ræða hversu óþægilegt væri fyrir hreyfinguna að eiga þá umræðu yfir höfði sér að Þráinn þægi hátt í 200 þúsund krónur á mánuði fyrir það eitt að vera á lista yfir þá sem þiggja heiðurslaun listamanna.

„Tek undir með Heiðu „practiserum það sem við predikerum" var stöðugt í umræðutorfi um laun Þráins síðustu dagana fyrir kostningar, hvar sem ég var að halda merkjum okkar á lofti og var sammála fólki um trúverðugleika okkar þegar þessi laun voru rædd," ritar Mummi í Götusmiðjunni. En Þráinn tekur öllum slíkum hugmyndum afar illa.

Fréttablaðið hafði áður greint frá þessu en þá líkti Þráinn heiðurslaununum við Ólympíugull og hefur einnig sagt að þau séu nokkuð sem hann er fyrir löngu búinn að vinna sér inn fyrir. Þessi afgerandi ummæli Þráins eru í nokkurri mótsögn við það sem hann sagði í kosningasjónvarpi RÚV, hjá Agli Helgasyni, að hann ætlaði að leita upplýsinga um fordæmi hjá starfsmönnum Alþingis. Eftir því sem næst verður komist eru engin fordæmi um að heiðurslaunaþegi hafi tekið sæti á þingi.- jbg










Fleiri fréttir

Sjá meira


×