Innlent

Guðni: Stjórnmálamenn eiga ekki að þiggja boðsferðir einstaklinga og fyrirtækja

Stjórnmálamenn og stjórnendur almannafyrirtækja eiga ekki að láta sér detta í hug að þiggja boð á borð við laxveiðiferðir af einstaklingum og fyrirtækjum. Þetta segir formaður Framsóknarflokksins. Hann segir stjórnmálamenn verða að hafa siðferði til að hafna slíkum boðum.

Eins og Vísir hefur greint frá þáðu þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, Vilhjálmur Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson boð í veiðiferð í Miðfjarðará í ágúst í fyrra. Var það Haukur Leósson, fyrrum stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur sem bauð þremenningunum í ferðina, en allir hafa þeir verið tengdir Orkuveitunni á einn eða annan hátt. Baugur átti veiðileyfin og var fjármálastjórinn Stefán Hilmarsson með í för. Þeir Vilhjálmur, Björn Ingi og Guðlaugur segjast ekki hafa vitað að Baugur ætti veiðileyfin. Ferðin hafi verið í boði Hauks sem hafa greitt fyrir þau en Guðlaugur segist hafa gert upp við Hauk eftir ferðina.

Málið hefur vakið upp spurningar um gjafir og boð til stjórnmála- og embættismanna. Formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, gagnrýnir ferðir af þessu tagi og segir að stjórnmálamenn eigi ekki að þiggja slík boð.

Guðni setur einnig spurningarmerki við þátt fyrirtækjanna í svona málum, en segir þá sem þáðu boðið hafa farið yfir velsæmismörk.

Guðni segir skýringar fjórmenninga vel geta staðist en þeir verða að svara fyrir sig hvort þeir eigi að segja af sér.

„Þeir fóru á svart svæði sem þeir eiga ekki að fara á," segir Guðni en fyrr í dag sagði hann jafnframt við Síðdegisútvarp Rásar 2 að Guðlaugur Þór ætti að framvísa kvittunum sem sýna að hann hafi greitt sjálfur fyrir veiðina.

Aðspurður segist Guðni ekki hafa þegið slík boð í sinni ráðherratíð og minnist hann þess ekki að hafa verið boðið í slíka ferð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×