Innlent

Stjórn HB Granda stendur við fyrri ákvörðun

MYND/Valgarður

Stjórn HB Granda ákvað á fundi sínum í dag að standa við þá ákvörðun sem kynnt var í síðustu viku um að segja upp öllum starfsmönnum landvinnslu á Akranesi.

Alls er um að ræða 59 manns og verður um þriðjungur þeirra ráðinn aftur. Fram kemur í tilkynningu á heimasíðu HB Granda að uppsagnirnar tengist breytingum á landvinnslunni á Akranesi. Vísað er í tilkynningu félagsins frá því fyrir viku en þar kom fram að landvinnsla botnfisks yrði lögð af og hafin sérvinnsla á léttsöltuðum, lausfrystum þorsk- og ufsaflökum í byrjun júní. Er þetta gert til þess að bregðast við skerðingu á þorskkvóta á núverandi fiskveiðiári.

Bæði bæjarstjórn Akraness og Verkalýðsfélag Akraness höfðu hvatt stjórn HB Granda til þess að endurskoða ákvörðun sína og hafði formaður verkalýðsfélagsins lýst því yfir að HB Grandi hefði ekki farið að lögum við uppsagnirnar. Endanleg ákvörðun í málinu var hins vegar tekin á fundi stjórnarinnar í morgun og stendur hún við fyrri yfirlýsingar.

Fundur verður í bæjarstjórn Akraness klukkan 18 í dag þar sem málið verður rætt. Þangað hafa verið boðaðir fulltrúar HB Granda, þingmenn Norðvesturkjördæmis og formaður Verkalýðsfélags Akraness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×