Innlent

Töluvert fleiri legíónellusmit í fyrra en árin á undan

MYND/GVA

Töluvert fleiri legíónellusmit greindust hér á landi í fyrra en árin á undan samkvæmt upplýsingum frá sýklafræðideild Landspítalans. Vitnað er til þeirra í Farsóttarfréttum Landlæknisembættisins en alls greindust 12 manns með veikina í fyrra.

Legíónellubakterían veldur hermannaveiki sem er alvarlegur sjúkdómur hjá þeim sem eru veikir fyrir og getur leitt til dauða. Hermannaveiki smitast ekki manna á milli heldur þrífst bakterían vel í raka og oft er hægt að rekja smit í hópsýkingum til loftkælinga og úðamyndandi búnaðar í umhverfi fólks.

Í farsóttarfréttum kemur fram að uppruni smitsins hafi verið af mismunandi toga. Talið er að fjórir einstaklingar hafi smitast á Íslandi, tveir á Spáni og einn í Bandaríkjunum, Hollandi, Svíþjóð og Eistlandi, en upplýsingar um smitland vantar fyrir tvo.

Engin þekkt tengsl eru milli þeirra sem smituðust á Íslandi, margir mánuðir liðu milli sýkinganna og tvær mismunandi tegundirbakteríunnar greindust. Því varð ekki vart við neina hópsýkingu hérlendis af völdum legíónellu þetta árið. Alls greindust 11 karlar og ein kona.

Sóttvarnarlæknir segir áríðandi að vera vakandi fyrir skyndilega auknum fjölda tilfella svo að hægt sé að rekja smitið og koma í veg fyrir frekari veikindi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×