Innlent

Neðanjarðareldgos undir Upptyppingum

Jarðskjálftarnir við Upptyppinga og Álftadalsdyngju skýrast af neðanjarðareldgosi og litlar líkur er á að það brjóti sér leið upp á yfirborðið á næstu árum. Þetta er niðurstaða rannsóknarhóps Íslenskra orkurannsóka.

Rannsóknarhópurinn mældi viðnám jarðskorpunnar við Upptyppinga í ágúst í fyrra og bar skjálftana á svæðinu saman við þær niðurstöður. Skjálftavirknin sem hófst snemma árs 2007 hefur vakið upp spurningar um hvaða fyrirbæri sé þarna á ferðinni en þeir hafa færst ofar í jarðskorpuna síðustu mánuði.

Jarðvísindamenn hafa túlkað það sem vísbendingar um að bergkvika sé að brjóta sé leið upp á yfirborðið og að það geti endað með eldgosi. Mælingar rannsóknarhópsins sýna annað.

Kvikan streymir upp um frekar mjóa pípu og safnast saman á um 13 til 15 kílómetra dýpi. Rannsóknarhópurinn telur að þar muni hún þróast í þónokkurn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×