Erlent

Ísinn við Norðurpólinn bráðnar nú mun hraðar en von var á

Fastaísinn við Norðurpólinn bráðnar nú mun hraðar en menn áttu von á og líkur eru á að Norðurpólinn verði nær íslaus í sumar ef heldur sem horfir.

Upplýsingar úr gerfihnöttum sýna að ísinn hefur minnkað í vetur þrátt fyrir töluverða kulda. Hér er um að ræða eldri og þéttari ísinn á pólnum sem getur betur staðið af sér hita en ísinn sem myndast til viðbótar þessum fastaís á hverju ári.

Rannsóknir sína að þessi fastaís er núna aðeins 30% af heildar ísmassanum en þetta hlutfall var helmingi hærra eða 60% fyrir aðeins tveimur áratugum síðan.

Upplýsingar sem bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur tekið saman í þessum mánuði sína að ís dekkar nú nánast sama svæði og hann gerði í mars á síðasta ári. Breytingin er hinsvegar sú að eldri og þéttari ísinn hefur aldrei verið minni að umfangi. Íshellan í heild er að mestu ís sem hefur myndast í vetur.

Vísindamenn reikna með mikilli bráðnun á Norðurpólnum í sumar og að norðurleiðin svokallaða fyrir ofan Kanada verði fær skipum eins og gerðist í fyrra. Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að pólinn verði alveg íslaus um miðja þessa öld. Nú telja margir að slíkt gerist þegar árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×