Innlent

Neðanjarðarlest gæti kostað rúma 50 milljarða

Neðanjarðarlestarkerfi í Reykjavík myndi kosta um það bil tvöfalt meira en fyrirhuguð Sundagöng eða rúma 50 milljarða króna.

Björn Kristinsson verkfræðingur sagði í fréttum stöðvar 2 í gærkvöldi að neðanjarðarlestarkerfi væri eina lausnin á vanda almennings-samgangna á höfuðborgarsvæðinu sem vit væri í. Hann sagði slíka framkvæmd dýra en það væri einnig að grafa sundur götur eða gera mislæg gatnamót.

Björn hefur reiknað út að mislæg gatnamót, Sundabraut og niðurgröftur gatna kosti nálægt 40 milljörðum. Til samanburðar kostar hver kílómetri af neðanjarðarlestarkerfi um 3 milljarða og hver lestarstöð um einn milljarð.

Skoðum hvernig slíkt kerfi gæti litið út í Reykjavík

Hægt væri að leggja eina braut frá Háskólasvæðinu upp í Grafarholt og aðra frá Laugarás til Fellahverfis. Krossgötur brautanna gætu verið í Skeifunni og samtals yrðu biðstöðvarnar 10. Brautin frá Háskólanum upp í Grafarholt væri þá 8 kílómetra löng og brautin frá Laugarásnum að Fellum um 5,5 kílómetrar. Samtals tæpir 14 kílómetrar. Slíkt kerfi myndi þá kosta 52 milljarða króna. Til samanburðar má nefna að gert er ráð fyrir að Héðinsfjarðargöng kosti um 9 milljarða og Sundagöng um 23 milljarða króna.

Ef hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu væru reiðubúin til að taka þátt í verkefninu þá væri möguleiki á að leggja eina braut úr skeifunni að Smáralind og þaðan undir Garðabæ og til Hafnarfjarðar en hún ein og sér myndi þá kosta um 8 milljarða og milljarð til viðbótar fyrir hverja biðstöð.

Það verður líklega ekki hægt að stíga út úr svona lest á Íslandi á næstu árum enda tekur um 10 til 20 ár að hanna og búa til svona kerfi. Hugmyndin snýst jú um að hanna kerfi sem hentar til framtíðar og það á við um neðanjarðarlestakerfi sem endist jafnvel í meira en 100 árAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.