Innlent

Bíða spenntir eftir því hvort vesturgangan kemur

Loðnugangan er nú kominn inn á Faxaflóa og eru nokkur skip að veiðum norðvestur af Garðskaga. Sjómenn bíða nú spenntir eftir því hvort svonefnd vesturganga lætur sjá sig í ár.

Veiðin er góð þannig að skipin hafa stutta viðkomu á miðunum áður en haldið er til löndunar. Með hverjum deginum styttist í að loðnan hrygni og drepist. Hrognin í henni eru því roðin fullþroskuð en mjög hátt verð fæst fyrir fryst hrogn, einkum í Japan.

Nú er búið að veiða um það bil helming af kvótanum og vonast sjómenn nú til að svonefnd vesturganga komi eins og stundum hefur gerst. Þá birtist loðnuganga skyndilega út af Vestfjörðum og í stað þess að ganga austur með norðurströndinni, fyrir Austfirði og svo vestur með suðurströndinni heldur hún sig vestur af landinu.

Ekkert hefur þó enn bólað á henni og togarar á Vestfjarðamiðum hafa ekki orðið hennar varir en stundum eru þeir fyrstir til að sjá loðnugöngur þótt þeir séu á allt öðrum veiðum. Vel viðrar nú til veiðanna og aðstæður allar hinar bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×