Innlent

Lögreglustjórinn krafinn um útskýringar á rekstraráætlun

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur kallað eftir ítarlegum upplýsingum og útskýringum frá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum vegna rekstraráætlunar sem embættið lagði fram fyrir árið í ár. Ráðuneytið leggur til að embættið spari um 191 milljón króna með fækkun stöðugilda, yfirvinubanni og fækkun stöðugilda svo fátt eitt sé nefnt.

Nýtt embætti lögreglustjórans og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli varð til hinn 1. janúar í fyrra með sameiningu ýmissra lögreglu, sýslumanns og tollaembætta. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var greint frá því að þessu nýja embætti sé gert að spara 191 milljón króna á þessu ári og 260 milljónir króna á því næsta. Tillögur þess efnis liggja fyrir í dómsmálaráðuneytinu. Í þeim er meðal annars gert ráð fyrir að ekki verði ráðið í sumarafleysingar hjá embættinu og að fastlaunasamningum verði sagt upp. Eins er lagt til að fækka stöðugildum, setja á yfirvinnubann, draga saman í kaupum á búnaði og skila inn tveimur lögreglubílum.

Vegna fréttar Stöðvar 2 um málið sendi dómsmálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu í gærkvöldi. Í henni segir að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum hafi sent frá sér rekstraráætlun vegna ársins 2008 eftir að fjárlög voru afgreitt á Alþingi. Í henni sé gert ráð fyrir um 200 milljónum í útgjöld umfram heimildir fjárlaga. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi því kallað eftir ítarlegum upplýsingum og útskýringum frá lögreglustjóraembættinu. Þangað til þær liggja fyrir verði starfsemi embættisins óbreytt. Þá er tekið fram að ekki sé um niðurskurð að ræða á fjárheimildum embættisins frá fyrri árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×