Innlent

Tími aðgerða runninn upp

Heimir Már Pétursson skrifar

Formaður Vinstri grænna segir að tími aðgerða sé runnin upp í efnahagsmálum og leggur til víðtækar aðgerðir í efnahagsmálum sem m.a. fela í sér að styrkja stöðu Seðlabankans verulega. Hann segir Íslendinga nú vera að greiða herkostnaðinn af stóriðju- og útrásarveislunni undanfarin ár.

Þingflokkur Vinstri grænna kynnti í dag frumvarp um ráðstafanir í efnahagsmálum, sem formaður flokksins segir miða að því að ná tökum á hagstjórninni og innleiða á ný efnahagslegan stöðugleika. Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans um 80 milljarða og eigið fé bankans um 40 milljarða.

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna segir ríkisstjórnina nánast sambandslausa við Seðlabankann. Nauðsynlegt sé að treysta undirstöður efnahagslífsins og það geri tillögur Vinstri grænna.

Steingrímur segir mikið innyrðis ójafnvægi ríkja í efnahagskerfinu auk þess vanda sem á rætur sínar í alþjóðakerfinu og í viðskiptum við útlönd. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fimm milljörðum verði veitt til illa stæðra sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Aðgerðir ríkisstjórnarinar hafi erkki tekið á vanda þeirra.

„Það er mikið innbyrðis ójafnvægi í efnahagsmálunum," segir Steingrímur. Á meðan þensla hafi verið á höfuðborgarsvæðinu og sumstaðar úti á landi hafi verið samdráttur í öðrum sveitarfélögum.

Að auki leggja Vinstri grænir til að ýmis sjóðir eins og nýsköpunarsjóður verði efldir og stóriðjuframkvæmdum slegið á frest. Steingrímur segir að landsmenn séu nú að greiða herkostnaðinn af stóriðju-og útrásaræðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×