Innlent

Enn óvíst hvort bólusett verði við leghálskrabbameini

Heimir Már Pétursson skrifar

Heilbrigðisráðherra hefur enn ekki ákveðið hvort teknar verða upp bólusetningar gegn leghálskrabbameini eins og sóttvarnarráð hefur lagt til. Í dag hófst átak gegn krabbameini hjá körlum, en þar beinist athyglin helst að ristilkrabbameini sem skimun verður hafin á á næsta ári.

Guðrún Agnarsdóttir forstjóri Karabbameinsfélags Íslands hleypti kynningarátaki um baráttuna gegn krabbameini hjá körlum af stokkunum í morgun, með því að selja ráðherrum ríkisstjórnarinnar þrílitan borða til styrktar átaksins.

Árlega greinast að meðaltali 630 karlar með krabbamein. Þar er blöðruhálskirtilskrabbameinið algengast, eða 190 tilefelli en þar á eftir kemur krabbamein í lungum og ristli. Ráðgert er að heja skimun á krabbameini í ristli á næsta ári, en 20 milljónir eru til undirbúnings verksins á þessu ári.

Guðrún segir að það sé mikið ánægjuefni að karlmenn geti látið skima fyrir krabbameini. En hingað til hefur aðeins verið boðið upp á reglulegt krabbameinseftirlit fyrir konur.

Sérfræðingar hafa lagt til að skimun á krabbameini í ristli hefjist við 55 ára aldur en áætlanir hafa gert ráð fyrir að hefja skimun um sextugs aldurinn. Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra hefur þó ekki kveðið endanlega upp úr um þetta. Hann segir að tíminn fram að áramótum verði notaður til að skoða þessi mál.

Sóttvarnarráð hefur komist að þeirri niðurstöðu að fækka megi leghálskrabbameinstilfellum hjá konum um helming með bólusetningum en ráðherra hefur ekki ákveðið hvort þær verði teknar upp. Heilbrigðisráðherra segir ekki ákveðið hvort bólusetning verði tekin upp, en verið sé að skoða það mál innan ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×