Innlent

Aðalfundur RÚV tveimur mánuðum of seint

MYND/GVA

Aðalfundur Ríkisútvarpsins ohf. verður að líkindum haldinn í lok mánaðarins, tveimur mánaðum síðar en samþykktir félagsins gera ráð fyrir. Á aðalfundinum verður þó aðeins birt uppgjör fyrstu fimm mánaða félagsins, en það tók til starfa 1. apríl í fyrra.

Samkvæmt samþykktum Ríkisútvarpsins á að halda aðalfund þess í lok janúar og á að boða til hans með hálfs mánaðar fyrirvara. Á aðalfundinum er fjallað um ársreikning hins opinbera hlutafélags, starfskjarastefnu Ríkisútvarpsins og þóknun til stjórnarmanna svo eitthvað sé nefnt.

Ástæða þess að ekki hefur verið hægt að halda fundinn er sú að stofnefnahagsreikning hlutafélagsins hefur vantað en Ríkisendurskoðun hefur verið með hann til meðhöndlunar.

Ársuppgjörið sem kynnt verður á aðalfundinum nær þó ekki til alls síðasta árs heldur aðeins frá 1. apríl til 31. ágúst. Ástæðan er sú að rekstrarár RÚV hf verður frá 1. september hvers árs til 31. ágúst næsta árs að sögn Páls.

Páll á von á því að aðalfundarboð verði sent út í næstu viku og boðað verði til aðalfundar í lok marsmánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×