Innlent

Bæjarráð Ísafjarðar vill samning um vatnssölu

Bæjarráð Ísafjarðar leggur til að bæjarstjórn samþykki samning við aðila sem hafa hug á að kaupa vatn af bænum til útflutnings.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs frá því í gær. Þar segir enn fremur að Halldór Guðbjarnason, fulltrúi aðilanna sem hug hafa á að kaupa vatnið, og Andri Árnason, hæstaréttarlögmaður og bæjarlögmaður Ísafjarðarbæjar, hafi mætt á fundinn og rætt samningamál. Fram hefur komið í fréttum að Halldór sé í forsvari fyrir félagið Brúarfoss sem hyggur á vatnsútflutninginn.

Bæjarráðið telur samninginn tilbúinn til samþykktar en búið er að vinna að honum undanfarna mánuði og þess gætt að hagsmunir Ísafjarðarbæjar séu tryggðir í hvívetna eins og segir í fundargerðinni. Samningurinn er sagður trúnaðarmál en bæjarfulltrúar fá eintak af honum.

Fram kom á vef Bæjarins besta í lok janúar að ekki sé ætlunin að flytja út vatn í drykkjarumbúðum heldur í gámum í þar til gerðum blöðrum, beint til aðila sem þurfa ferskt vatn í sína starfsemi. Er þar helst rætt um bjór- og vínframleiðendur, snyrtivöruframleiðendur og lyfjafyrirtæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×