Innlent

Allar umsóknir afgreiddar

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu Reykjaness
Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu Reykjaness

Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi sendi í kvöld frá sér fréttatilkynningu vegna fréttaumfjöllunar í fjölmiðum undanfarna daga um að svæðisskrifstofan hefði synjað fjölskyldum fatlaðra barna um aðstoð frá stuðningsfjöldskyldum.

Tilkynningin er svohljóðandi:

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum síðast liðna viku, vill Svæðisskrifstofa Reykjaness geta þess að Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra hefur að öllu leiti farið rétt með um það að engri fjölskyldu fatlaðs barns hafi verið neitað um stuðningsfjölskyldu.

Svæðisskrifstofa Reykjaness hafnaði engum stuðningsfjölskyldusamningum. Foreldrum sem óskuðu eftir endurnýjun á samningum var tilkynnt um að bið yrði á afgreiðslu þeirra þar til fjárveitingar væru tryggðar.

Svæðisskrifstofa, og Félags- og tryggingamálaráðuneytið hafa átt góða samvinnu við lausn málsins. Engin skerðing verður á þjónustu við fötluð börn á Reykjanessvæðinu hvorki í skammtímavistun né stuðningsfjölskyldum.

Allar fyrirliggjandi umsóknir um stuðningsfjölskyldu hafa nú þegar verið afgreiddar.

Af gefnu tilefni vill undirrituð hér með koma á framfæri að fjárheimildir stofnunarinnar árið 2007 var rúmur 1,6 milljarður. Rekstur stofnunarinnar á síðasta ári var innan við 1% umfram fjárheimildir en ekki 50% eins og hermt hefur verið. Svæðisskrifstofa Reykjaness annast umfangsmikla búsetu-, skammtímavistunar-, dag- og stoðþjónustu við fatlaða í 12 sveitarfélögum á svæðinu.

Fyrir hönd Svæðisskrifstofu Reykjaness,

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×