Innlent

Jón sannfærður um sigur

Jón Ólafsson er sannfærður um að hann muni vinna meiðyrðamál gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni á nýjan leik en áfrýjunardómstóll í Bretlandi hafnaði frávísunarkröfu Hannesar í morgun.

Í samtali við Fréttastofu Stöðvar 2 sagði Jón að biðjist Hannes afsökunar og greiði honum átta milljónir í skaðabætur auk kostnaðar og vaxta samtals um 30 milljónir mun Jón fella málið niður.

Ef Hannes hins vegar ákveður að halda málinu til streitu gæti það kostað hann um 60 milljónir króna, það er að segja ef hann tapar því fyrir dómsstólum aftur.

Forsaga málsins er sú að Jón höfðaði mál gegn Hannesi árið 2004 en Hannesi hafði gefið það í skyn á heimasíðu sinni að Jón hefði efnast á ólöglegan hátt. Dómstóll í Bretlandi komst að þeirri niðurstöðu að ummæli Hannesar hafi verið afar meiðandi og því bæri honum að greiða Jóni 60 þúsund pund í bætur eða sem nemur tæpum átta milljónum íslenskra króna.

Að auki var Hannesi gert að greiða allan málskostnað sem nemur um 20 milljónum króna.

Hannes fór fram á að málinu yrði vísað frá dómi á þeim forsendum að stefnan gegn honum hafi verið ólögmæt. Málið fór fyrir öll dómstig í Bretlandi og í dag vísaði áfrýjunardómstóllinn í Bretlandi frávísunarkröfu Hannesar frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×