Innlent

Vegagerðin til liðs við áhugamenn um risaborkaup

Risabor á Kárahnjúkum.
Risabor á Kárahnjúkum. Úr myndasafni

Vegagerðin er komin í samstarf með Austfirðingum og Norðmönnum í könnun á hagkvæmni þess að nota risabor við heilborun jarðganga fyrir þjóðvegi.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kanna sveitarstjórnarmenn og verktakar á Austurlandi nú þann möguleika á að kaupa síðasta risaborinn í Kárahnjúkum áður en hann verður sendur úr landi eftir tvo mánuði. Íslendingum býðst að fá borinn fyrir lágt verð.

Að sögn Hreins Haraldssonar, framkvæmdastjóra hjá Vegagerðinni hafa sveitarfélögin Seyðisfjörður, Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað fengið Vegagerðina til liðs við sig sem og verkfræðistofuna Línuhönnun og sérfræðinga við háskólann í Þrándheimi til að kanna hagkvæmni þess að beita heilborun við gerð jarðganga á Miðausturlandi, en sú könnun er óháð kaupum á þessum tiltekna bor.

Á gildandi vegaáætlun er hins vegar aðeins gert ráð fyrir göngum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, sem leysa munu af Oddsskarðsgöngin.

Grunnrannsóknir vegna þrennra ganga sem tengja myndu helstu byggðarlög Austurlands um Mjóafjörð voru gerðar fyrir áratug en ekki reyndist þá pólitískur vilji til að ráðast í það stórvirki.

Forsenda hugsanlegra kaupa á síðasta Kárahnjúkabornum er hins vegar sú að samstaða náist milli sveitarfélaga og stjórnvalda um að ráðast í þá jarðgangagerð á Miðausturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×