Innlent

Meðferð lögreglu í bága við pyntingarákvæði stjórnarskrár

Fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður og meistaranemi í lögfræði segir að þvagleggsmálið svokallaða á Selfossi stangist á við stjórnarskrá um bann gegn pyntingum. Málið gæti endað fyrir mannréttindadómstólnum.

Í vikunni féll dómur þar sem kona á Suðurlandi var dæmd fyrir ölvun við akstur og brot gegn valdstjórninni. Þegar hún neitaði að heimila sýni þvagprufu var hún valdbeitt og þvagleggur settur upp.

Hreiðar Eiríksson, meistaranemi í lögfræði og fyrrum lögreglumaður, segir í tímariti lögfræðinema við lagadeild Háskólans á Akureyri að meðferð lögreglu hafi stangast á við ákvæði stjórnarskrár, 68. grein um pyntingar auk þess sem aðfarirnar hafi verið til þess fallnar að særa blygðungarkennd konunnar.

Í ritgerð hans segir: „Höfundur hóf störf í íslenskri lögreglu árið 1984 og starfaði þar þangað til árið 2005. Aldrei á þeim tíma kom til tals að beita valdi til að taka þvagsýni um þvaglegg úr mönnum sem grunaðir voru um ölvun við akstur. Það kom því höfundi óþægilega á óvart þegar upp komst að íslensk lögregla beitti árið 2007 slíkum aðferðum sem virðast augljóslega fara í bága við pyntingarákvæði íslenskrar stjórnarskrár."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×