Innlent

Krabbameinsfélagið fær 42 milljónir frá SPRON sjóðnum

Guðrún Agnarsdóttir, Kristján Sigurðsson, Guðmundur Hauksson og Jóna Ann, við afhendinguna í dag.
Guðrún Agnarsdóttir, Kristján Sigurðsson, Guðmundur Hauksson og Jóna Ann, við afhendinguna í dag.

SPRON-sjóðurinn ses. hefur veitt Krabbameinsfélagi Íslands 42 milljóna króna styrk til kaupa á úrlestrarstöðvum sem röntgenlæknar nota til að lesa úr stafrænum brjóstamyndum. Jóna Ann Pétursdóttir, framkvæmdastjóri SPRON-sjóðsins ses., afhenti Guðrúnu Agnarsdóttur, forstjóra Krabbameinsfélags Íslands, styrktarféð við athöfn í dag.

„Úrlestrarstöðvarnar eru liður í umfangsmikilli tækjavæðingu á leitarsviði Krabbameinsfélagsins þar sem stafræn tækni er notuð við leit að brjóstakabbameini. Um er að ræða viðamikið verkefni með margvíslegum vélbúnaði og hugbúnaði fyrir tæplega 500 milljónir króna. Þegar hefur fengist fjárstuðningur sem nemur um tveimur þriðju þessa stofnkostnaðar," segir í tilkynningu frá sjóðnum.

Jóna Ann Pétursdóttir, framkvæmdastjóri SPRON-sjóðsins ses., afhenti Guðrúnu Agnarsdóttur, forstjóra Krabbameinsfélags Íslands, styrktarféð við athöfn í dag. „Það er mjög ánægjulegt að geta styrkt hið mikilvæga forvarnastarf sem Krabbameinsfélagið innir af hendi í baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Félagið hefur tryggt konum aðgang að bestu mögulegri tækni við krabbameinsleit á undanförnum árum og er þessi styrkur liður í því að tryggja að svo megi verða áfram," sagði Jóna Ann við afhendingu fjárins.

Stafræn tækni sem notuð verður á leitarsviði Krabbameinsfélagsins auðveldar leit í þéttum brjóstvef, auk þess að auðvelda úrlestur gagna. Þá fylgja stafrænni tækni minni geislaskammtar og minni mengun þar sem leitarferlið er filmulaust. Hinar stafrænu vinnustöðvar tryggja auk þess að textar úr gagnagrunni og röntgenmyndir eru samtengd þannig að greining skráist á rétt nafn og kennitölu.

Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, segir að leitarstarf Krabbameinsfélagsins hafi stuðlað að því að lifun kvenna á Íslandi eftir greiningu með brjóstakrabbamein væri með því besta sem þekkist. „Leitarstöðin tekur nú upp stafræna tækni við leit að þessum sjúkdómi en hún er mun áreiðanlegri en áður hefur þekkst og bætir vinnuaðstöðu röntgenlækna. Krabbameinsfélag Íslands metur mikils þessa höfðinglegu gjöf sem gerir félaginu kleift að bjóða konum á Íslandi áfram bestu þjónustu sem völ er á."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×