Innlent

Býst við bylgju netþjónabúa

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra er sannfærður um að bylgja netþjónabúa eða gagnavera komi í kjölfarið á því sem var innsiglað í Reykjavík í gær.

Í gær voru í fyrsta sinn hér á landi undirritaðir samningar um að reisa alþjóðlegt gagnaver á Íslandi en þau hafa verið í deiglunni árum saman. Gagnaverið verður á Keflavíkurflugvelli og er talið marka tímamót í atvinnusögu landsins. Hundrað ný störf verða til á Suðurnesjum á næstu fjórum til fimm árum í tengslum við verið.

Talið er að starfsemin verði komin á fulla ferð eftir eitt ár. Nýr sæstrengur verður lagður í sumar en hann hefur verið talinn grundvöllur þess að hægt verði að staðsetja orkufrek netþjónabú sem þessi á Íslandi.

Iðnaðarráðherra var bjartsýnn á frekari uppbyggingu á þessu sviði í ræðu sinni í gær. Vísaði hann til þess að iðnaðaráðuneytið hefði í gær tekið á móti enn einu fyrirtækinu sem væri að leita hófanna með sams konar starfsemi. Í dag kæmi svo annað í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×