Innlent

Verðbólga komin í 6,8 prósent

MYND/GVA

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í miðjum febrúar 2008 hækkaði um 1,38 prósent frá fyrra mánuði samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Það þýðir að verðbólga er nú 6,8 prósent en hún var 5,8 prósent um miðjan janúar. Fara þarf aftur til febrúar í fyrra til að finna hærri verðbólgutölur en þá reyndist verðbólgan 7,4 prósent.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að kostnaður vegna reksturs eigin bifreiðar jókst um 2,5 prósent og þar af hækkaði verð á nýjum bílum um 2,6 prósent og á bensíni og olíu um 3,6 prósent. Vetrarútsölum er að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 9,1 prósent.

Þá jókst kostnaður vegna eigin húsnæðis um eitt prósent, þar af voru 0,15 prósenta áhrif vegna hærri raunvaxta og 0,05 prósent vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis. Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvöru um tæpt prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×