Innlent

Dæmdur fyrir vörslu barnakláms

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi á föstudag ungan karlmann í þrettán mánaða fangelsi fyrir að hafa í sinni vörslu tæplega 15 þúsund ljósmyndir og 207 hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

Við refsiákvörðun í málinu var litið til þess, að um var að ræða mikinn fjölda ljósmynda og hreyfimynda, sem maðurinn geymdi í tölvu sinni og meginhluti þeirra sýndi grófa misnotkun á börnum og töldust brotin því stórfelld. Á hinn bóginn var litið til tiltölulega ungs aldurs ákærða og að hann hafði játað brot sitt greiðlega.

Þá segir í niðurstöðum dómsins að töluverður tími sé liðinn frá því að maðurinn framdi brotin og samkvæmt því, sem fram hafi komið hjá verjanda sé hann nú í góðri vinnu og eigi unnustu. Þá kom fram að maðurinn leitaði sér sálfræðilegrar aðstoðar vegna barnahneigðar sinnar.

Því þótti rétt að dæma manninn í þrettán mánaða fangelsi, en þar af eru tíu mánuðir skilorðsbundnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×