Innlent

Barroso: Evrópusambandið elskar Ísland

Jose Manuel Barroso segir ESB líta á Ísland sem náinn bandamann.
Jose Manuel Barroso segir ESB líta á Ísland sem náinn bandamann. MYND/AP

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir samstarf ESB og Íslands á innri markaði Evrópu vera afar náið og einstaklega gott.

„Samstarf Evrópusambandsins og Íslands er frábært í alla staði. ESB metur mikils og ber mikla virðingu fyrir því sem Ísland stendur fyrir," sagði Barroso í samtali við Bryndísi Hólm, fréttaritara Stöðvar 2 í Noregi, en hann var staddur á Evrópuráðstefnu um umhverfis- og orkumál sem norska utanríkisráðuneytið stóð fyrir í Osló í dag.

Jose Manuel Barroso tekur á móti Geir H. Haarde forsætisráðherra í Brussel á miðvikudag. Forseti framkvæmdastjórnar ESB vildi ekki svara því hvernig hugsanlegri aðildarumsókn Íslendinga að ESB yrði tekið en undirstrikaði að Ísland væri vel þróað lýðræðisríki sem Evrópusambandið liti á sem náinn bandamann.

En telur Barroso að Ísland og Noregur kunni að sitja eftir í Evrópusamrunanum ef ríkin íhuga ekki aðild á næstu árum?

„Ég get ekki svarað þessu. Ég ætla fyrst að ræða þessi mál við Geir H. Haarde og fá þannig betri mynd af afstöðu íslenskra stjórnvalda í þessum efnum," sagði Barroso.

En viltu sjá Ísland sem meðlim í ESB?

„Evrópusambandið elskar Ísland en að svo stöddu virðum við þá afstöðu íslensku þjóðarinnar að standa fyrir utan," sagði Barroso að lokum í samtali við fréttaritara Stöðvar 2 í Osló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×