Innlent

Karlmaður kærður vegna perraháttar í sundlaug

Lögreglunni á Suðurnesjum hafa borist nokkrar kærur vegna erlends karlmanns sem grunaður er um kynferðislega áreitni gagnvart ungum stúlkum í Sundlaug Keflavíkur. Allt eins er talið líklegt að fleiri kærur líti dagsins ljós á næstunni.

Jóhannes Jensson, yfirmaður rannsóknardeildar Lögreglunnar á Suðurnesjum, staðfesti við Vísi að þetta mál hefði komið upp. "Rannsókn stendur yfir og það er ekkert annað um málið að segja á þessu stigi," segir Jóhannes.

Á vef Víkurfrétta er greint frá því að karlmaðurinn hafi fyrst haft þessa tilburði uppi á föstudag og síðan aftur í gær.

Það staðfestir Jón R. Jóhannesson forstöðumaður Sundmiðstöðvar Keflavíkur. Hann segir að sundmiðstöðinni hafi borist ákveðnar ábendingar sem hafi orðið til þess að starfsfólk var mjög vakandi.

„Við fréttum af þessum manni á föstudaginn en þá kom nú engin kvörtun. Síðan gerist þetta aftur í gær og þá er bara hringt beint á lögreglu sem mætir á staðinn og tekur málið yfir," segir Jón sem hafði nýlega sett saman verklagsreglur um hvernig á að bregðast við þegar svona atvik kemur upp.

„Um leið og einhver grunur kemur upp þá hringjum við á lögreglu sem síðan fer í það að ræða við þessar stúlkur og í kjölfarið foreldrana," segir Jón. Hann vill ekki gefa uppi hvað nákvæmlega maðurinn gerði við stúlkunnar enda málið í rannsókn og viðkvæmt á þessu stigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×