Innlent

Telur Vilhjálm hafa stigið stórt skref

Forsætisráðherra segir að yfirlýsing borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna í gær hafi bundið enda á óvissuna í borginni. Hann telur Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson hafa stigið stórt skref með þeirri yfirlýsingu að enn væri opið hver tæki við stöðu borgarstjóra að ári.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sat fyrir svörum í þættinum Mannamáli hjá Sigmundi Erni Rúnarssyni í gærkvöldi, meðal annars um stöðuna í borgarstjórnarflokkinum og yfirlýsingu Vilhjálms Þ.

Geir sagði Vilhjálm nú vera búinn að opna á það að það verði einhver annar en hann sem taki við embættinu. „Það finnst mér vera stórt skref af hans hálfu til að mæta þeirri gagnrýni sem hann hefur orðið fyrir," segir Geir.

Síðastliðinn sunnudag gaf Geir borgarstjórnarflokknum viku til að taka af skarið. Aðspurður hvort þetta kallaðist að taka af skarið sagði Geir að nú væri bundinn endi á það óvissuástand sem skapast hefði fyrir hálfum mánuði. „Það er það sem var vandamálið frá því fyrir um það bil tveimur vikum. Nú er búið að loka því með þessum hætti, það er gefin út yfirlýsing. Það liggur fyrir að Vilhjálmur verður oddviti þangað til annað verður ákveðið," segir Geir.

Sigmundur Ernir benti á að það væri engin vissa um hver yrði borgarstjóraefni flokksins vegna þess að flokkurinn kæmi sér ekki saman um það. „Það liggur fyrir að það verður sjálfstæðismaður sem tekur við eftir 13 mánuði," svaraði Geir.

Aðspurður hvort hann styddi Vilhjálm sem borgarstjóraefni flokksins sagði Geir: „Ef það er niðurstaðan þá mun ég auðvitað styðja hana."

Hér má sjá viðtalið í Mannamáli í heild sinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×