Innlent

Ákveðin framför frá óvissu í síðustu viku

MYND/GVA

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir þá ákvörðun borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna að ákveða í sameiningu hver verði borgarstjóri eftir rúmt ár, umtalsverða framför frá þeirri óvissu sem ríkti í síðustu viku. Hann telur að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti flokksins, hafi í raun gefið frá sér borgarstjórnarstólinn með ákvörðuninni í gær.

Fram kom í tilkynningu borgarstjórnarflokksins í gær að hann styddi Vilhjálm áfram sem oddvita flokksins og ekki væri ástæða til að taka þá ákvörðun nú hver yrði borgarstjóri þegar Ólafur F. Magnússon hverfur úr borgarstjórastól í mars 2009. Vilhjálmur sagði sjálfur að það væri opið hver tæki við borgarstjóraembættinu.

Aðspurður um stöðuna í borginni nú segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, að komin sé einhvers konar lending í málinu. „Ég tel það mjög ólíklegt að Vilhjálmur blandi sér í þetta og hann er í raun búinn að láta þetta frá sér," segir Gunnar Helgi um borgarstjóraembættið og yfirlýsingar sjálfstæðismanna. Þá segir hann að ástandið nú sé betra en í síðustu viku þegar ekki hafi verið ljóst hvernig sjálfstæðismenn myndu taka á málinu.

Aðspurður hvort ekki sé enn óvissa í borginni þar sem ekki liggi fyrir hver taki við borgarstjóraembættinu segir Gunnar Helgi að það væri vissulega sterkara fyrir sjálfstæðismenn að vera með oddvita sem væri ekki á útleið. Flokkurinn hljóti að komast að niðurstöðu um nýjan oddvita en til þess þurfi hann tíma.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag að borgarfulltrúarnir Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Júlíus Vífill Ingvarsson hafi öll áhuga á að taka við borgarstjóraembættinu. Aðspurður segir Gunnar Helgi enga leið að leggja mat á það hvort eitt þeirra teljist líklegra en hin til þess að taka við embættinu.

Þá grípur hann til handboltalíkingar aðspurður hvort þremenningarnir séu komnir í einhvers konar kosningabaráttu. „Þau hljóta að vera búin að stilla upp. Þetta er fólk sem ætlar sér hluti í pólitík og það er fullkomlega eðlilegt," segir Gunnar Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×