Innlent

Aldrei hefur heyrst í neyðarsendi

Leit að flugvélinni, sem brotlenti 50 sjómílur vestur af Reykjanesi í gær, hefur engan árangur borið. Aldrei hefur heyrst í neyðarsendi hennar, sem gæti bent til að hún hafi sokkið strax.

Leit úr lofti með þyrlum var hætt um klukkan hálfníu í gærkvöldi enda voru þá engar aðstæður lengur til leitar úr lofti. Varðskipið Ægir og þrír stórir togara héldu áfram leit í allan nótt og leita enn en eftir því sem tíminn líður stækkar leitarsvæðið vegna strauma og vinds.

Flugvél frá danska flughernum, sem tók þátt í leitinni í gær hélt frá Keflavíkurflugvelli um klukkan átta til leiltar á ný og leitar eitthvað fram yfir hádegi. Þá hélt Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar til leitar á ný laust fyrir klukkan ellefu með fimm klukkustunda flugþol.

Fimm lítil björgunarskip frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu bíða líka átekta í höfnum á Reykjanesi. Leitarskilyrði eru hins vegar afleit, stórsjór og það gengur á með hvössum og dimmum éljum. Við þær aðstæður þykir ekki ástæða til að senda þyrlur eða björgunarskipin til leitar.

Hverfandi líkur eru nú taldar á að finna flugmanninn og síðar í dag verður tekin ákvörðun um framhald leitarinnar. Vélin sem brotlenti var tveggja hreyfla Cessna 210. Hún var að koma frá Bandaríkjunum og hafði millilent í Narsarsuak á Grænlandi. Flugmaðurinn er breskur og er talið að ferðinni hafi verið heitið til Englands eftir viðkomu í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×