Innlent

Kastljósið viðurkennir mistök

Breki Logason skrifar
Sigmar Guðmundsson
Sigmar Guðmundsson

„Ofsagt var hjá spyrli, Sigmari Guðmundssyni, að Vilhjálmur hafi fullyrt í viðtali þann 8 október að hann hafi ekki vitað um umtalaða kaupréttarsamninga," segir í yfirlýsingu frá Kastljósinu vegna viðtals við Vilhjálm Þ Vilhjálmsson í þætti gærkvöldsins.

Vilhjálmur sendi frá sér yfirlýsingu vegna þáttarins fyrir stundu þar sem sagði:

„Vegna umfjöllunar Kastljós um að ég hafi þann 4. október. annars vegar og 8. október, hins vegar orðið tvísaga um málefni kaupréttasamninga vil ég taka eftirfarandi fram. Ég mótmælti þessu harðlega og sagði að snúið hefði verið út úr orðum mínum. Spyrjandi Kastljós hélt öðru fram. Eftir að hafa skoðað málið nánar, kemur í ljós að ég hafði rétt fyrir mér og hafði ekki orðið tvísaga, eins og stjórnendur Kastljóss hafa viðurkennt."

Í samtali við Vísi sagðist Sigmar Guðmundsson ekki vilja tjá sig um málið að öðru leyti en því sem fram kemur í eftirfarandi yfirlýsingu.

Vegna viðtals við Vilhjálm Þ Vilhjálmsson í þættinum í gær vill Kastljós koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri:

Ofsagt var hjá spyrli, Sigmari Guðmundssyni, að Vilhjálmur hafi fullyrt í viðtali þann 8 október að hann hafi ekki vitað um umtalaða kaupréttarsamninga. Hið rétta er að Vilhjálmur var þar að tala um lista yfir kaupréttarhafa sem hann sagðist á þeim tíma ekki hafa séð. Það leiðréttist hér með.

Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kassljóss

Sigmar Guðmundsson, aðstoðarritstjóri Kastljóss

Í umræddri yfirlýsingu frá Vilhjálmi Þ Vilhjálmssyni kemur einnig fram að í sama viðtali hafi hann talað um ráðgjöf borgarlögmanns. Þar segist hann hafa átt við fyrrverandi borgarlögmann, sem taldi að hann hefði umboð til að taka þessa ákvörðun sem fulltrúi eigenda.

Heimildir Vísis herma að fyrrverandi borgarlögmaður sem Vilhjálmur talar um sé Hjörleifur Kvaran núverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.

Ekki náðist í Hjörleif þar sem hann er staddur erlendis. Von er á honum til landsins seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×