Innlent

Kjaraviðræður töfðust vegna veðurs

Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Kjaraviðræður á milli Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar halda áfram á laugardag. Þær töfðust nokkuð í dag vegna veðurs.

 

 

Til stóð að viðræðunefnd landsbyggðarfélaga Starfsgreinasambandsins kæmi til borgarinnar að funda en hún var að mestu veðurteppt heima í héraði svo ekki gafst færi á að ígrunda stöðu samningamála á sameiginlegum vettvangi, eins og segir á heimasíðu Starfsgreinasambandsins.

 

 

Þar segir einnig að á fundi verkalýðsfélaganna með SA á laugardag verði rædd drög að mögulegum launaramma fyrir nýjan kjarasamning. Fullskipuð viðræðunefnd landsbyggðarfélaga SGS kemur hins vegar ekki saman fyrr en á mánudag til að fara yfir stöðuna og taka afstöðu til mögulegra og ásættanlegra launabreytinga.

 

 

Starfsgreinasambandið tekur skýrt fram að ekkert sé enn fast í hendi þótt samkomulag sé í meginatriðum um forsendur og tímalengd nýs kjarasamnings. ,,Tíminn fram yfir helgi verður notaður til að ganga frá ýmsum ókláruðum almennum kröfum SGS og Flóafélaganna sem og sameiginlegum kröfum landssambanda ASÍ sem vísað var á borð ríkissáttasemjara um leið og Starfsgreinasambandið vísaði deilunni þangað,'' segir á vef Starfsgreinasambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×