Innlent

Móður ungs fíkils ekki sagt frá unglingadeild SÁÁ

Alda Áskelsdóttir skrifar
Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Vogi.
Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Vogi.
Unglingur sem vill fara í meðferð á unglingadeild SÁÁ getur fengið pláss þar nær samdægurs. Móðir drengsins sem rændi útibú Glitnis í Lækjargötu á mánudag var ekki bent á þann möguleika á sínum tíma. Hún sagði í 24 stundum í dag að "kerfið" hefði brugðist syni sínum.

,,Ég vildi fá hjálp vegna vímuefnaneyslu Ásgeirs Hrafns og leitaði til Barnaverndar Reykjavíkur. Svörin voru að hann yrði að bíða í allt að þrjá mánuði áður en hægt væri að sækja um meðferðarpláss fyrir hann. Meta þyrfti aðstæður hans. Ásgeir var tilbúinn að leita sér hjálpar á þessum tíma en ekki eftir þrjá mánuði. Honum var ekki boðið upp á hjálp meðan að matið átti að fara fram né bent á önnur úrræði. Ég hafði ekki hugmynd um á þessum tíma að SÁÁ ræki deild fyrir unga fíkniefnaneytendur. Það var ekki fyrr en ári síðar og sonur minn enn lengra leiddur að hann fór í meðferð hjá SÁÁ."

Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segist ekki ætla að draga orð móðurinnar í efa. ,,Ef til vill var þekking starfsmannsins sem tók á móti henni ekki nægilega yfirgripsmikil. Á þessum tíma var Barnavernd Reykjavíkur nýtekin til starfa. Við reynum að veita upplýsingar um meðferðarúrræði sem eru í boði og benda fólk hvert það geti leitað. Verklag og verklagsreglur hafa verið reglulega í endurskoðun síðan þetta var og þá sérstaklega hvað varaðr uppklýsingagjöf."

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi kannst vel við þetta vandamál. ,,Við, starfsfólk SÁÁ, höfum vitað lengi að kerfið upplýsir fólk ekki nægilega vel um þau úrræði sem eru í boði. Við höfum oft orðið vör við að ekki er minnst á unglingadeild SÁÁ við foreldra. Nýverið var skrifað undir samstarfssamning á milli Reykjavíkurborgar og SÁÁ þar sem eitt af markmiðunum er að bæta upplýsingaflæðið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×