Innlent

65 milljónir til viðbótar vegna manneklu

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag 65 milljóna króna aukafjárveitingu til sérstakra aðgerða í starfsmannamálum Reykjavíkurborgar á þessu ári. Áður hafði verið ákveðið að verja 180 milljónum til þessa og nemur því heildarupphæðin 245 milljónum króna.

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að markmiðið sé að umbuna starfsmönnum sem hafa verið undir miklu álagi undanfarna mánuði vegna manneklu. Þar er einkum átt við starfsmenn grunnskóla, leikskóla, frístundaheimila, hjúkrunarheimila og annarra starfsstaða sem glímt hafa við undirmönnun og mikla starfsmannaveltu.

Áætlanir gera ráð fyrir að 160 milljónir af fénu gangi til grunnskólans og 40 milljónir til leikskóla en 45 milljónir dreifast á önnur svið borgarinnar.

 

,,Nú þegar hafa verið markvissar aðgerðir í starfsmannamálum hjá Reykjavíkurborg með það að markmiði að samræma hlunnindi starfsmanna og efla ákvæði um starfsaldur í kjarasamningum þannig að starfstími í sambærilegum störfum hjá ríki, öðrum sveitarfélögum og sjálfseignastofnunum sem rekin eru aðallega af almannafé, verði metinn til jafns við starfstíma hjá Reykjavíkurborg," segir í tilkynningu frá borginni.

Þar segir einnig að með þessu vilji borgarstjóri og borgarráð ítreka stuðning sinn við mikilvægi góðrar starfsmannastefnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×