Innlent

Fjölmargir vegir á landinu lokaðir og víða ekkert ferðaveður

Fjölmargir vegir á landinu eru nú ófærir vegna mikillar ofankomu og eru vegfarendur hvattir til þess að kanna færð áður en þeir leggja á vegi landsins.

Lokað er á Sandskeið, Hellisheiði, Þrengslin, Mosfellsheiði, Brattabrekka, Holtavörðuheiði, Fróðárheiði, Súðavíkurhlíð, Óshlíð, Gemlufallsheiði, Ísafjarðardjúp, Strandir, Steingrímsfjarðarheiði, Klettsháls, Kleifarheiði, Öxnadalsheiði, Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði, Oddskarð, Breiðdalsheið og Öxi.

Þá er snjóþekja og skafrenningur á Reykjanesbraut og þæfingsfærð víðast hvar á Suðurlandi og stendur mokstur yfir. Á Snæfellsnesi er þungfært á öllum leiðum og stórhríð og ekkert ferðaveður. Annars staðar á Vesturlandi er þæfingsfærð og lítið ferðaveður.

Á Vestfjörðum er ekkert ferðaveður og á Norðurlandi er hálka, éljagangur og snjókoma á flestum leiðum, hálka og óveður á Vatnskarði og Þverárfjalli. Óveður á Hólasandi og Mývatnsheiði.

Flughálka er í kringum Egilstaði og á milli Breiðdalsvíkur og Djúpavogs og þar er óveður. Snjóþekja og hálka er á öðrum leiðum. Á Suðausturlandi er flughált frá Höfn að Kvískerjum og frá Skaftafelli að Kirkjubæjarklaustri, á öðrum leiðum er krapasnjór að sögn Vegagerðarinnar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×