Erlent

Kosið í nærri helmingi ríkja

Bandaríkjamenn í nærri helmingi fylkja Bandaríkjanna ganga að kjörborðinu í dag til að velja frambjóðendur stóru flokkanna tveggja.

Forkosningar í Bandaríkjunum hafa sjaldan vakið jafn mikla athygli, verið jafn spennandi eða fengið jafn mikla þátttöku almennings. Forkosningar demókrata sérstaklega hafa slegið þátttökumet þannig að þar sem kosið hefur verið hingað til hefur þátttakan víða verið tvisvar sinnum meiri en fyrir fjórum árum.

Hillary Clinton hefur örlítið forskot á Barack Obama á landsvísu en allar kannanir sýna hins vegar fylgisaukningu Obama. Kosið er hlutfallskosningu þannig að frambjóðendur fá fulltrúa á flokksþingið nokkurn vegin í samræmi við atkvæði í einstökum fylkjum.

Kalifornía gefur langflesta fulltrúana og þar hefur Obama verið að sækja í sig veðrið frá áramótum. Spurningin er hvort honum hefur tekist að sigla fram úr Clinton og þeirri spurningu verður svarað um fjögurleytið í nótt þegar kjörstöðum verður lokað í Kaliforníu.

Meðal repúblikana er einnig mikil spenna en allt bendir þó til að stríðshetjan og öldungardeildarþingmaðurinn John McCain fari fram úr Mitt Romney, fyrrverandi ríkisstjóra Massachussetts. Þar getur hvert prósentustig ráðið úrslitnum því repúblikanar hafa það fyrirkomulag á víðast hvar að sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í ákveðnu fylki vinnur alla fulltrúa sem það fylki sendir á flokksþingið í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×