Innlent

Dagur: Í dag ætti að kjósa í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, segir borgarbúa hafa orðið vitni að afbökun á lýðræði og stjórnmálum með myndun nýs meirihluta sjálfstæðismenna og Ólafs F. Magnússonar.

„Í dag ætti að kjósa í Reykjavík, ekki í borgarstjórn heldur í Reykjavík," sagði Dagur. Ástæðan væri sú að borgarbúar hefðu orðið vitni að því að það hefði verið misfarið með vald og lýðræði. Það væri komið í ljós að hinn svokallaði nýi meirihluti væri byggður á blekkingum, fljótfærnislegum vinnubrögðum og veruleika sem fólk hefði aldrei áður kynnst í íslenskri pólitík.

Dagur vísaði til þess að í dag eru nákvæmlega 100 ár frá því að fjórar konur tóku fyrstar kvenna sæti í borgarstjórn. Þessi dagur ætti því að vera tákn um lýðræði og hverngi fólk með áhuga á stjórnmálum gæti haft áhrif. Flest benti hins vegar til að nýr meirihluti hefði verið búinn til af tveimur einstaklingum - tveimur körlum. Meirihlutinn væri andvana fæddur og fæli í sér djúpstæðari stjórnarkreppu en menn gerðu sér grein fyrir í fyrstu. „Þetta er ákaflega mikill ábyrgðarhluti," sagði Dagur.

Sjálfstæðisflokkurinn á hnjánum

Dagur sagði enn fremur ljóst af samskiptum hans og Svandísar Svavarsdóttur við Ólaf F. Magnússon á mánudag að Ólafur hafi verið þess fullviss að það ættu sér stað viðræður við aðra úr fráfarandi meirihluta. „Það var auðvitað fjarri sanni," sagði Dagur og bætti við: „Rétt er að halda því til haga að allt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn féll saman í haust og nýr meirirhluti tók við hafa sjálfstæðismenn verið á hnjánum seint og snemma að melda hitt og þetta, að þeir væru til í hitt og þetta með og án Villa." Því hafi verið svarað með hæðnisbrosi enda ekki verið að fjalla um einhvern 15 manna klúbb heldur ákvarðanir með almannahagsmuni í huga.

Sagði Dagur Sjálfstæðisflokkinn hafa lagst á hnén og boðið borgarstjórastólinn en látið hugsjónir lönd og leið. Mikil væri reisn þessa gamla flokks.

Sagðist Dagur stoltur af sínum verkum þá hundrað daga sem hann hefði setið sem borgarstjóri og því fólki sem hann hefði unnið með. Þakkaði hann þeim, starfsmönnum borgarinnar og borgarbúum fyrir samstarfið. „Ég ætla fullvissa alla að við erum rétt að byrja," sagði Dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×