Innlent

Fagnar endurkomu Sjálfstæðisflokksins

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, fagnar endurkomu Sjálfstæðisflokksins að stjórn Reykjavíkurborgar.

Í ályktun frá félaginu kemur fram að sjálfstæðismenn fái nú annað tækifæri til þess að hrinda í framkvæmd þeim stefnumálum sem sett voru á oddinn fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Mikilvægt sé að þetta tækifæri verði vel nýtt höfuðborgarbúum til hagsbóta og að sjálfstæðisstefnan verði ávallt höfð að leiðarljósi við ákvarðanatökur.

Heimdellingar vilja að vaxandi útgjaldaaukning borgarinnar á ný verði stöðvuð og hafist verði handa við að lækka álögur á borgarbúa. Áframhaldandi fasteignaskattslækkanir séu kærkomnar fyrir borgarbúa en betur má ef duga skal. Ljóst sé að með aðhaldi í rekstri mætti jafnframt lækka útsvar sem nú er í hámarki.

Þá vilja Heimdellingar að borgaryfirvöld tryggi eðlilegt og hagsælt rekstrarumhverfi fyrir reykvísk fyrirtæki og að í skipulagsmálum verði tryggt að eðlileg framþróun geti átt sér stað í húsbyggingum og borgarskipulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×