Innlent

Kvartar til umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar ráðherra

Einn af fimm umsækjendum um embætti dómara við Héraðsdóm Norðurlands Eystra hefur lagt fram kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar setts dómsmálaráðherra að skipa Þorstein Davíðsson í embættið.

Eins og fram hefur komið gekk Árni Mathiesen, settur dómsmálaráðherra, fram hjá þremur umsækjendum sem metnir voru hæfastir þegar hann skipaði Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara. Einn þeirra, Guðmundur Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður, hefur nú lagt fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar ráðherra.

Skipanin hefur verið gagnrýnd harðlega og hún meðal annars sögð ósiðleg og ólögmæt. Fjallað var um málið á fjölmennum fundi í Háskólanum í Reykjavík í dag.

Þar vísaði Sigríður Á. Andersen, lögmaður, þeim fullyrðingum á bug að ráðherra hafi farið út fyrir valdsvið sitt þegar hann skipaði Þorstein í embættið. Hún segir hins vegar eðlilegt að skoða hvort leggja eigi dómnefndina niður og færa starf hennar inn í ráðuneytið.

Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður, segir ljóst að ráðherra hefði átt að taka meira tillit til niðurstöðu dómnefndar um hæfni umsækjenda. „Ráðherran getur ekki farið að eigin geðþótt. Hann getur ekki farið eftir því sem honum finnst. Hann verður að komast að niðurstöðu á grundvelli þeirrar aðferðarfræði, þeirrar viðurkenndu aðferðarfræði sem að stjórnsýslureglurnar setja honum."

Ástráður segir að ráðherra hafi fallið á prófinu að þessu leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×