Innlent

Var ekki boðinn borgarstjórastóllinn

Heimir Már Pétursson skrifar

Svandís Svarasdóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, segir rangt að sjálfstæðismenn hafi boðið henni borgarstjórastóllinn eins og Ólafur F. Magnússon, verðandi borgarstjóri, fullyrti í gær.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að það var sjálfstæðismönnum mikið áfall þegar Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna, sleit meirihlutasamstarfi við þá í byrjun október. Allt síðan þá hafa gengið sögur um tilraunir þeirra til að fá aðra flokka í borgarstjórn til ganga til liðs við sig.

Vinstri grænir hafa sérstaklega verið nefndir í því samhengi og hafa leiðarahöfundar Morgunblaðsins beinlínis og ítrekað hvatt til þess samstarfs. Það mátti skilja á Ólafi F. Magnússyni, oddvita F-listans, og verðandi borgarstjóra í hádegisviðtalinu í gær að hann hafi verið einn af mörgum sem sjálfstæðismenn reyndu að draga á tálar. Þar sagði Ólafur að hann vissi ekki betur en sjálfstæðismenn hafi boðið Svandísi borgarstjórastólinn fljótlega eftir að fráfrandi meirihluti tók við völdum í borginni í október.

Sjálfstæðismenn leituðu hófanna hjá Svandísi

Svandís Svavarsdóttir sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í morgun að fyrst eftir að núverandi meirihluti tók við hafi sjálfstæðismenn leitað hófanna við sig um samstarf. Nú væri að koma á daginn að þeir hafi leitað eftir slíkum samtölum við fleiri án þess árangurs sem þeir væntu.

Ef hins vegar Ólafi F. Magnússyni hafi verið sagt að einhvers konar viðræður væru nú í gangi við sig eða aðra borgarfulltrúa VG um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn þá væri verið að segja honum ósatt. Svandís segir að það væri forkastanlegt að hennar mati að beita slíkum aðferðum og sjálfstæðismönnum til minnkunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×