Innlent

Óánægður viðskiptavinur hindraði aðkomu sjúklinga að Læknavaktinni

Breki Logason skrifar
Læknavaktin
Læknavaktin

„Það var haft samband við mig og ég benti á að maðurinn gæti talað við skrifstofuna eftir helgi sem er mjög eðlilegt vinnulag," segir Gerður Árnadóttir læknir á Læknavaktinni en óánægður viðskiptavinur lét illa eftir að honum var neitað um endurgreiðslu fyrir skömmu.

Rætt var um málið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær þar sem Jóhannes Gunnarsson talsmaður neytenda var spurður út í málið. „Ég tel eðlilegt vinnulag að viðkomandi þurfi ekki að gera sér aðra ferð til þess að sækja 2.200 krónur heldur á hann að fá endurgreitt þegjandi og hljóðalaust," segir Jóhannes í samtali við Vísi vegna málsins.

Málið snýst um mann sem kom á Læknavaktina seinni part á laugardegi til þess að fá bóluefni vegna inflúensu. Hann var látinn greiða fyrir bóluefnið og sendur inn til læknis. Þá kemur í ljós að bóluefnið er ekki til og biður maðurinn þá um endurgreiðslu. Gerður sem var á vaktinni þennan eftirmiðdag bendir honum hinsvegar á að tala við skrifstofuna eftir helgi en maðurinn tók það ekki í mál.

„Það var síðan haft samband við mig nokkrum mínútum síðar og mér tilkynnt að hann sætti sig ekki við þessa niðurstöðu. Því var einnig haldið fram að hann kæmi í veg fyrir að hægt væri að innrita fólk sem var að leita sér læknisaðstoðar," segir Gerður sem kom þá þeim skilaboðum áleiðis að kalla þyrfti til lögreglu ef maðurinn væri að hindra fólk sem leitaði læknisaðstoðar.

„Það eru eðlileg viðbrögð en lögreglunni var ekki hótað vegna þess að hann fékk ekki endurgreiðslu á staðnum. Á þessu er grundvallarmunur," segir Gerður.

„Það er ekki meginmálið í þessu heldur það að viðkomandi var að kaupa ákveðna þjónustu sem hann gat ekki fengið og honum var neitað um endurgreiðslu. Það tíðkast í viðskiptum almennt að menn fái endurgreitt ef ekki er hægt að veita þá þjónustu sem greitt er fyrir," segir Jóhannes og bætir við að hann viti ekkert hvort einhver stífni hafi verið á milli mannsins og starfsmanna Læknavaktarinnar.

„Ég hóta fólki ekki lögreglu að ástæðulausu. Við áttum ekki til þetta bóluefni og við getum ekkert ráðið við það. Þetta snérist hinsvegar um að hann hindraði aðkomu fólks að vaktinni og það er óásættanlegt," segir Gerður Árnadóttir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×