Innlent

Deilt um aðgerðir og aðgerðaleysi í efnahagsmálum

MYND/AP

Þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu deildu um það í upphafi þingfundar hversu vel ríkissstjórnin stæði sig í þeim ólgusjó sem nú er í efnahagsmálum í heiminum.

Það var Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem kvaddi sér hljóðs um störf þingsins og benti á að margir váboðar væru á lofti. Kallaði hann eftir því að einhver innan stjórnarmeirihlutans gerði sér grein fyrir alvöru málsins. Hann teldi sjálfur ástandið grafalvarlegt og hann hefði áhyggjur af aðgerðaleysi og algjöru kjarkleysi ríkisstjórnarinnar til þess að takast á við vandamálið í efnahagslífinu.

Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar, sagði að flestir þingmenn deildu áhyggjum með Bjarna en menn hefðu mismunandi afstöðu til þess hversu alvarlegt málið væri og hvernig takast ætti á við verkefnin. Íslenskt fjármálakerfi væri sterkt um þessar mundir og atvinnustig hátt og efnahagslífið væri því ágætlega statt til þess að takast á við erfiðleika.

Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, benti á að efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefði í nýrri spá sinni sagt að óvissuþættir í efnahagsmálum væru fleiri en áður. Hins vegar hefði forsætisráðherra afar mikilvægt halda ró sinni. Einkaneysla væri að dragast saman en það væri kraftur og orka í íslensku hagkerfi og hjá íslenskri þjóð. Íslenskt atvinnulíf þyrfti á því að halda að þingmenn stæða við bakið á því en ekki ætti að taka ástandið niður.

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri - grænna, tók einnig til máls og sagði ljóst að aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar væri eitt versta vandamálið í efnhagsmálum. Ríkisstjórnin hefði hafnað aðkomu að kjaraviðræðum í landinu og hann hefði þungar áhyggjur af kjaramun á milli hópa. Bilið hefði breikkað milli þeirra sem mest hefðu og þeirra sem minnst hefðu og óstöðugleikinn vegna þessa kæmi alls staðar í ljós.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu einnig ríkisstjórnina fyrir aðgerðir í sjávarútvegsmálum þar sem nú hefði komið á daginn að tugir og hundruð hefðu missti starf sitt við fiskvinnslu. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×