Innlent

Líftími reykskynjara um 10 ár

Líftími reykskynjara er almennt um 10 ár og þarf að skipta þeim út fyrir nýja að endingartíma loknum. Á þetta bendir Öryggismiðstöðin í tilkynningu sem send er út vegna tíðra og válegra eldsvoða að undanförnu.

Þar segir einnig að tryggja þurfi að reykskynjarar virki með því að prófa þá reglulega en skipta þurfi um rafhlöðu í flestum tegundum reykskynjara árlega. Eins þurfi að þrífa reykskynjara t.d. með ryksugu að lágmarki árlega þar sem ryk og óhreinindi sem safnast fyrir í þeim geta skert virkni þeirra verulega.

Öryggismiðstöðin bendir enn fremur á að ef eldur komi upp á heimili geti hann tvöfaldast á 30 sekúndum og hitastig hækkað um hundruð gráða á fáeinum sekúndum. Frá slíkum eldi komi kolsvartur lífshættulegur reykur þar sem einn andardráttur getur skaðað lungu.

Algengast er að eldur í heimahúsum komi upp á milli kl. 2 og 6 að næturlagi og því segir Öryggismiðstöðin lífsnauðsynlegt að hafa reykskynjara til að vekja íbúa. Þeir eigi að vera á öllum hæðum húsa og helst í öllum herbergjum þar sem rafmagnstæki eru til staðar og eins í svefnherbergjum. Rétt staðsettir reykskynjarar sem skynja eld snarlega eftir að hann kemur upp veiti íbúum lengstan tíma til að flýja úr íbúð.

„Mælt er með að hurðir séu hafðar lokaðar að næturlagi en það getur lengt þann tíma sem tekur eld að magnast og þann tíma sem íbúar hafa til að bregðast við eftir að reykskynjari vekur þá upp. Fjölskyldur ættu að æfa viðbrögð við eldsvoða, skilgreina flóttaleiðir úr íbúðum sínum og ákveða hvar skuli hittast utan við íbúð ef upp kemur eldur," segir enn fremur í tilkynningu Öryggismiðstöðvarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×