Innlent

Lögreglumenn íhuga stöðu sína eftir sýknudóm

Andri Ólafsson skrifar

„Þessi dómur vekur hjá mér mikla furðu," segir Steinar Adolfsson, formaður Landsambands lögreglumanna, en Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag tvo af þremur Litháum sem ákærðir voru fyrir að ráðast á lögreglumenn sem voru við hefðbundið fíkniefnaeftirlit á Laugavegi í janúar.

Fimm menn voru handteknir vegna árásarinnar á lögreglumennina. Þrír voru ákærðir og aðeins einn dæmdur. Hann fékk 60 daga fangelsi fyrir að hafa slegið tvo lögreglumenn í andlitið.

Héraðsdómi þótti hins vegar ekki komin fram lögfull sönnun fyrir aðild mannanna þriggja að árás á þriðja lögreglumanninn sem hlaut heilahristing í átökunum.

Steinar Adolfsson segir að þessi dómur veki hörð viðbrögð hjá lögreglumönnum og að þeir lögreglumenn sem urðu fyrir árásunum sem um ræðir séu verulega hugsandi yfir stöðu sinni.

„Við í Landssambandi lögreglumanna eigum hins vegar eftir að kynna okkur frekar forsendur dómsins og munum tjá okkur frekar eftir að hafa gert það," sagði Steinar í samtali við Vísi skömmu eftir að dómurinn féll í dag.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×