Innlent

Síðasta kvöldmáltíðin besta auglýsingin

Síðasta kvöldmáltíðin með þeim Júdasi og Jesú Kristi var valin besta sjónvarpsauglýsingin í keppni Ímarks um Íslensku auglýsingaverðlaunin. Síminn auglýsti þar farsímaþjónustu. Sama auglýsing hreppti einnig verðlaun sem besta dagblaðaauglýsingin. Fyrirtækið EnnEMM framleiddi auglýsingarnar.

Auglýsingastofan Jónsson & Lemack hlaut verðlaun fyrir útvarpsauglýsinguna Júdas fyrir Hive, en auglýsingastofan hlaut flest verðlaun á hátíðinni, eða átta af 14.

Fyrirtækið hlaut fjögur verðlaun fyrir auglýsingar sem það gerði fyrir Eymundsson í flokkum tímaritaauglýsinga, veggspjalda, umhverfisgrafíkur og auglýsingaherferðar. Í flokki vefauglýsinga hlaut fyrirtækið verðlaun fyrir Veðurfjarstýringu fyrir Glitni. Þá hlaut auglýsingastofan einnig verðlaun fyrir markpóst Lífíss, Sjálfstætt fólk og í opnum flokki fyrir Sía hátíðina í höndum Jónsson & Lemack.

Hvíta húsið hlaut tvenn verðlaun. Annars vegar í flokki vöru- og firmamerkja fyrir auglýsingu Samtakanna 78 og hins vegar fyrir Reykjavíkurmaraþon Glitnis - event.

Verðlaun fyrir almannaheillaauglýsingar ljósvaka- og prentmiðla komu bæði í hlut auglýsingastofunnar Fíton sem hún gerði fyrir VR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×