Enski boltinn

City bjargaði stigi á elleftu stundu

Robinho litli skoraði jöfnunarmark City
Robinho litli skoraði jöfnunarmark City AFP

Manchester City tryggði sér 2-2 jafntefli gegn Blackburn með góðum endaspretti í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Blackburn var með pálmann í höndunum og yfir 2-0 þegar aðeins sex mínútur voru eftir, en lærisveinar Sam Allardyce fóru illa að ráði sínu í lokin.

Ekki var útlit fyrir að Mark Hughes færi með stig frá gamla heimavellinum sínum framan af í leiknum, en hann var stjóri Blackburn í fjögur ár áður en hann tók við City í sumar.

Benni McCarthy kom heimamönnum í Blackburn yfir í leiknum í uppbótartíma í fyrri hálfleik og Jason Roberts kom liðinu í 2-0 þegar sex mínútur lifðu leiks.

Það var hinsvegar varamaðurinn Daniel Sturridge sem var hetja gestanna í kvöld. Hann minnkaði muninn með laglegu skoti á 88. mínútu og lagði svo upp jöfnunarmark fyrir Robinho þegar einhverjar sekúndur voru eftir í uppbótartíma.

Stigið fleytir Manchester City upp í 13. sæti deildarinnar en Blackburn er enn í næstneðsta sæti með 18 stig líkt og West Brom, en hefur skárri markatölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×