Enski boltinn

Tevez meiddur - Rooney að ná sér

NordicPhotos/GettyImages

Óvíst er hvort Argentínumaðurinn Carlos Tevez geti tekið þátt í leik Manchester United og Aston Villa í enska bikarnum á laugardaginn eftir að hann meiddist á ökkla í leiknum gegn Birmingham í dag.

Tevez var borinn af velli eftir lokaflautið í dag og fékk þungt högg á hægri ökkla eftir tæklingu. Sir Alex Ferguson er ekki bjartsýnn á að hann geti mætt Villa um helgina.

"Hann varð fyrir slæmri tæklingu og fann meira og meira til eftir því sem leið frá brotinu. Við urðum svo að bera hann af velli og eigum eftir að meta meiðsli hans betur á morgun. Hann er ekki líklegur í Villa-leikinn á laugardaginn," sagði Ferguson.

Góðu tíðindin eru hinsvegar þau að þar gæti Wayne Rooney verið orðinn klár í slaginn eftir að hafa verið með vírus og misst af síðustu tveimur leikjum. "Það hefði verið áhættusamt að láta Wayne spila í dag, en hann verður væntanlega orðinn góður um helgina," sagði Ferguson í samtali við Sky.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×