Innlent

Aldrei eins nauðsynlegt og nú að meta afleiðingar stórra ákvarðana

MYND/Pjetur

Færa má rök fyrir því að aldrei hafi verið eins nauðsynlegt og við núverandi efnahagsaðstæður að meta gaumgæfilega allar afleiðingar stórra ákvarðana, til að mynda á sviði orkunýtingar og þungaiðnaðar. Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra í skýrslu um umhverfismál sem lögð hefur verið fram á Alþingi.

Þetta er í fyrsta sinn sem umhverfisráðherra kynnir slíka skýrslu en í henni er bent á að vægi umhverfismála hafi aukist mikið á liðnum árum. Með skýrslunni sé ætlunin að upplýsa Alþingi um starfið í umhverfisráðuneytinu og stefnumótun í málaflokknum.

Ráðherra bendir á að samkvæmt stjórnarsáttmálanum einsetji ríkisstjórnin sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða í umhverfismálum og láti til sín taka í baráttu gegn mengun og sóun náttúruauðlinda. Sérstök áhersla sé lögð á að ná víðtækri sátt meðal landsmanna um verndun verðmætra náttúrusvæða og í því augnamiði sé unnið að rannsóknum á verndargildi einstakra svæða.

Umhverfisráðherra bendir enn fremur á að hér á landi hafi verið mikil og hröð uppbygging á sviði orkunýtingar og þungaiðnaðar sem hafi haft mikil áhrif á umhverfi og samfélag. Núverandi efnahagslægð sé að hluta til afleiðing af ofþenslu á liðnum árum.

Við núverandi efnahagsaðstæður heyrist hins vegar raddir um að slaka þurfi á kröfum um umhverfisvernd og góða grundun ákvarðana um framkvæmdir. „Þvert á móti má færa fyrir því rök að aldrei hafi verið eins nauðsynlegt að meta gaumgæfilega allar líklegar afleiðingar stórra ákvarðana eins og nú," segir ráðherra. Hægt sé að byggja upp blómlegt samfélag án þess að fórna sérstæðum náttúruperlum og víðernum sem vart sé lengur að finna í öðrum ríkjum í vestanverðri Evrópu.

„Ísland trónir nú efst á lista yfir þau ríki þar sem mest velsæld ríkir, skv. mælingu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ef við höfum ekki efni á að meta áhrif framkvæmda og stórra ákvarðana vel og gera umhverfisvernd hátt undir höfði er varla mikil von til þess að aðrir geti leyft sér að reyna að vinna af heilum hug að sjálfbærri þróun," segir ráðherra einnig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×