Innlent

Skoðar áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða

Flugfélagið Iceland Express hefur fengið bráðarbirgðaaðstöðu á Reykjavíkurflugvelli fyrir innanlandsflug. Félagið skoðar nú áætlunarflug til Akureyrar og Egilsstaða.

Iceland Express hefur lengi sóst eftir aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli fyrir innanlandsflug. Í fyrstu vildi félagið fá aðstöðu hjá Flugfélagi Íslands en var neitað. Flugstoðir hafa nú gefið félaginu vilyrði fyrir bráðabirgðaaðstöðu við austurenda vallarins þangað til samgöngumiðstöðin mun rísa í Vatnsmýrinni.

Samkvæmt upplýsingum frá Flugstoðum er ekki um stóra aðstöðu að ræða en miðað er við tvær flugvélar sem geta borið um fimmtíu manns.

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, sagðist í samtali við fréttastofu fagna ákvörðun Flugstoða. Hann sagði ekki liggja fyrir hvenær félagið muni hefja innanlandsflug. Fram undan væru viðræður við Flugstoðir um uppbygginguna og frekari markaðsvinna af hálfu félagsins.

Hann segir þó Akureyri og Egilsstaði helst koma til greina sem fyrstu áfangastaði en útilokar ekki aðra. Félagið hefur skoðað ATR-flugvélar til notkunar í innalandsflug en Íslandsflug notaði slíkar vélar um árabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×