Enski boltinn

Mourinho er til í að snúa aftur til Englands

NordcPhotos/GettyImages

Jose Mourinho segist ekki útiloka að snúa aftur til Englands á næstu leiktíð, en þvertekur fyrir að vera búinn að lofa að taka að sér þjálfun Inter á Ítalíu.

Mourinho hefur lítið verið í sviðsljósinu síðan hann hætti hjá Chelsea forðum, en ítrekaði í viðtali við Sky Sports í kvöld að hann væri ekki búinn að ákveða neitt varðandi næsta ár.

"Ég er ekki búinn að finna mér félag og hef ekki undirritað eitt eða neitt. Ég er mjög ánægður með lífið en ég vona að ég geti fundið mér félag fljótlega svo ég geti hafið störf á næsta undirbúningstímabili. Ef ég finn ekki félag, verður bara að hafa það, ég hef það gott og get alveg beðið lengur," sagði knattspyrnustjórinn litríki.

Hann segist helst vilja breyta til þegar hann snýr aftur, en útilokar ekki að snúa aftur til Englands ef ekkert gott kemur upp frá öðrum löndum.

"Ég var í rúm fjögur ár á Englandi og er því tengdur félaginu sem ég starfaði fyrir. Ég var eins og fáni félagsins út á við og tengslin sem ég náði við stuðningsmennina voru ótrúleg og ég get ekki útskýrt þau. Ég vildi helst starfa utan Englands upp á þetta að gera en það er ekki á allt kosið í þessu," sagði Mourinho og ítrekaði að hann hefði ekki skrifað undir neitt sem meinaði honum að taka við öðru liði á Englandi þegar hann fór frá Chelsea.

"Lagalega séð má ég starfa hjá hvaða félagi sem er á Englandi en þó ég elski enska boltann, væri ég frekar til í að fara annað en að stýra öðru liði á Englandi. Ég mun þó ekki láta það aftra mér ef sú staða kæmi upp," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×